Kvæðið RAKKI

Hero Image

15.12.2023Evelyn Ýr

RAKKI

Sá er nú meir en trúr og tryggur
með trýnið svart og augun blá,
fram á sínar lappir liggur
líki bóndans hjá.

Hvorki vott né þurrt hann þiggur,
þungt er í skapi, vot er brá,
en fram á sínar lappir liggur líki bóndans hjá.

Ef nokkur líkið snertir, styggur
stinna sýnir hann jaxla þá,
og fram á sinar lappir liggur
líki bóndans hjá.

Til dauðans er hann dapur og hryggur,
dregst ei burt frá köldum ná,
og hungurmorða loks hann liggur
líki bóndans hjá.

Grímur Thomsen (1820-1896) skald, sótti sér gjarnan yrkisefni í fortíðina að hætti rómantískra skálda en hann orti þetta fallega kvæði RAKKI. Það er um íslenskan hund sem svelti sig til dauðs af sorg út af missi húsbónda síns en tryggð og hollusta hunda ná stundum út yfir gröf og dauða. Sagan um kvæðið er erftirfarandi en atburðurinn er talinn hafa átt sér stað á Austurlandi um 1869:

Á leiði einu í kirkjugarðinum í Þingmúla i Skriðdal er mynd af hundi, sem liggur fram á lappir sínar. Þetta er leiði Þorgríms Arnórssonar, sem á öldinni, sem leið, var prestur í Hofteigi á Jökuldal og í Þingmúla. Hann var búmaður mikill og dýravinur. Hann átti ágæta hesta, og jafnan átti hann hund, sem lá í nánd við hann, þegar hann var heima við, og fylgdi honum alltaf eftir á ferðalögum. Seinasti hundur séra Þorgríms hét Rakki. Þá er séra Þorgrímur lézt, vildi hundurinn ekki víkja frá líki hans, og var Rakka lofað að liggja við líkbörurnar. Ekki fékkst hann til að bragða vott eða þurrt. Líkið var kistulagt, en Rakki hélt uppteknum hætti. Síðan fór jarðarförin fram, og þegar líkkistan var borin í kirkju, fylgdi Rakki henni að kirkjudyrunum. Þá er kistan var borin út, sýndi það sig, að Rakki hafði beðið við kirkjudyrnar. Hann fylgdi kistunni eftir, og þegar mokað hafði verið ofan í gröfina, lagðist hann á moldarbinginn. Reynt var að bera hann á brott, en hann undi því hið versta, og strax og honum hafði verið sleppt, hljóp hann út í kirkjugarð og lagðist á leiði séra Þorgríms. Rakka var færður matur og drykkur, en hann neytti ekki neins, og loks varð hann hungurmorða á leiðinu. Brezkum ferðamanni, sem kom að Þingmúla, var sögð sagan af Rakka. Hann varð svo hrifinn af henni, að hann lét móta mynd af hundi og sendi hana síðan út til Islands með þeim fyrirmælum, að henni skyldi komið fyrir á léiði séra Þorgríms.

Heimild Dýraverndarinn 1955


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun